Kolbrún PálsdóttirMenntavísindasvið Háskóla Íslands
10. maí
Silfurberg
12:50 - 13:30

Hvert stefnum við? Skóla- og frístundastarf í nútíð og framtíð

Kolbrún Þ. Pálsdóttir tekur saman það helsta úr dagskrá morgunsins og stýrir að því loknu sófaspjalli þar sem góðir gestir ræða menntun í  nútíð og framtíð. Áhorfendur geta sent inn spurningar í gegnum SLIDO.

Í starfi sínu sem forseti MVS tekur Kolbrún þátt í að byggja upp nám, rannsóknir og nýsköpun á sviði menntunar ásamt breiðum hópi samstarfsfólks innan og utan háskólasamfélagsins. Kolbrún tók þátt í að móta og þróa starf frístundaheimila, bæði sem fagaðili á árunum 2002-2008 og eftir þann tíma sem rannsakandi. Hún hefur óbilandi trú á samvinnu milli ólíkra fagstétta og leggur áherslu á aukinn skilning á samþættu námi sem fléttar saman styrkleika formlegs og óformlegs náms.

Björgvin Ívar Guðbrandsson er kennari og verkefnastjóri við Langholtsskóla og Menntavísindasvið HÍ. Hann hefur starfað við kennslu í rúm 20 ár og allan þann tíma verið virkur þáttakandi í ýmis konar þróunarstarfi. Björgvin er einn þeirra sem hefur leitt þróunarverkefnið Smiðjur sem hefur að markmiði að auka veg þverfaglegs náms með áherslu á sköpun, lykilhæfni og nýtingu upplýsingatækni í námi. Í fyrra hlaut Langholtsskóli íslensku menntaverðlaunin fyrir þá vinnu. 

Guðrún Kaldal er framkvæmdastjóri frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar sem þjónustar Vesturbæ, Miðborg og Hlíðar. Þar er hún hluti ef geggjuðu teymi fagmanna í skóla- og frístundastarfi. Guðrún hefur unnið  hjá Reykjavíkurborg í yfir 30 ár. Hún hefur brennandi áhuga á frístundastarfi og velferð barna og unglinga og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir starf sitt. Í Tjörninni er lögð áhersla á jákvæð samskipti og að vinna með verndandi þætti í uppeldi. Guðrún hlakkar alla daga til þess að mæta í vinnuna og er stolt af því að tilheyra samfélagi Tjarnarinnar.

Guðrún Sólveig er leikskólastjóri í Rauðhóli, stærsta leikskóla borgarinnar, en hún hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir starf sitt. Guðrún segist hafa verið mjög lánsöm þegar hún fann draumastarfið sitt aðeins 17 ára gömul en þá hóf hún störf í leikskóla og síðan hefur hún upplifað ótrúleg ævintýri með kraftmiklu og metnaðarfullu samstarfsfólki. Henni finnst mest spennandi að vinna með börnum og fjölskyldum þeirra, fá tækifæri til að efla styrkleika hvers einstaklings og sjá drauma barna, starfsfólks og foreldra rætast á degi hverjum. 

Hafsteinn Vilhelmsson er starfandi dagskrágerðamaður og verkefnastjóri hjá RÚV. Hann vann í frístundamiðstöðinni Miðbergi í áratug og hann elskar Breiðholtið þar sem hann ólst upp. 2012 útskrifaðist hann sem leikari úr Kvikmyndaskóla Íslands og landaði um leið sínu stærsta hlutverki þegar hann varð pabbi.