Pasi SahlbergUNSW Sydney
10. maí
Silfurberg
10:00 - 10:40

Menntun til framtíðar að heimsfaraldri loknum: Lærum af reynslunni á Íslandi - "Building Back Better: Learning from the Icelandic experience"

Finnski menntafræðingurinn Pasi Sahlberg hefur starfað sem kennari, fræðimaður og ráðgjafi um árabil. Hann hefur verið ráðgefandi um stefnumótun í menntakerfum í sínu heimalandi og víða um heim og er jafnframt gestaprófessor við Harvard-háskóla. Pasi hefur fengið fjölmargar viðurkenningar fyrir framlag sitt til menntamála, m.a. í Finnlandi, Danmörku og Skotlandi.  

Þekktastur er hann hér á landi fyrir bók sína „Finnska leiðin“ en í henni setur hann fram hugmyndir sem hafa haft umbreytandi áhrif á menntun víða um heim. Nú starfar Pasi sem prófessor við New South Wales háskólann í Sidney í Ástralíu. Pasi var einn af þeim fræðimönnum sem kom að mótun menntastefnu Reykjavíkur og hefur veitt ráðgjöf við innleiðingu hennar.

Í erindi sínu ætlar Pasi að fjalla um þær gríðarlegu breytingar sem heimsfaraldurinn  hefur haft á líf okkar allra, samskipti og nám. Streitan og álagið hefur verið prófraun fyrir allt menntakerfið en samhliða höfum við lært að sveigjanleiki, sköpun, samstarf og traust eru þeir þættir sem stuðla að þrautseigju og úthaldi. Pasi mun fjalla um áhrif alls þessa á menntun í alþjóðasamhengi og færa rök fyrir mikilvægi þess að nýta þetta tækifæri til að breyta menntun til framtíðar, m.a. með aukinni áherslu á leik barna. 

Í lok erindisins munu þau Fríða Bjarney Jónsdóttir og Helgi Grímsson spjalla við Pasi og taka við spurningum frá áhorfendum í gegnum SLIDO.

Fríða Bjarney, deildarstýra Nýsköpunarmiðju Menntamála, hefur það hlutverk að styðja starfsstaði skóla- og frístundasviðs við innleiðingu menntastefnu Reykjavíkur til 2030

Helgi Grímsson er sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.