Menntafléttan - námssamfélög í skóla- og frístundastarfi
10. maí
Háaloft
22:40 - 23:10

Þróun námssamfélags - hugtakaskilningur í stærðfræði

Á þessu skólaári hefur námskeiðið Hugtakaskilningur í stærðfræði verið kennt í HÍ og HA undir yfirskriftinni Námssamfélag stærðfræðikennara undir leiðsögn stærðfræðileiðtoga og er það fyrsta námskeiðið sem kennd eru á vegum Menntafléttunnar – námssamfélög í skóla- og frístundastarfi.

Fossvogsskóli, Borgarskóli, Dalskóli og Vesturbæjarskóli fengu styrk frá Reykjavíkurborg til að vera í samstarfi við HÍ við að móta námskeið og fá sérstakan stuðning frá kennurum HÍ. Stærðfræðileiðtogar þessara skóla taka þátt í námskeiðinu Hugtakaskilningur í stærðfræði. Þar að auki koma kennarar námskeiðsins á samstarfsfundi í þessum skólum og styðja leiðtogana við að kynna verkefnið fyrir samkennurum og fylgjast með undirbúningi kennara fyrir kennslustundir og úrvinnslu þeirra eftir kennslu.

Í þessu erindi verður byrjað á að kynna hugmyndafræði námskeiðsins, efnistök og inntak. Síðan ætla stærðfræðileiðtogar Fossvogsskóla, Borgarskóla, Dalskóla og Vesturbæjarskóla að tala um hvernig þeir vinna með námssamfélögunum í sínum skólum. Þeir ætla að segja frá hvernig þeir vinna sem leiðtogar í námssamfélagi, hvernig þeir vinna með námsefni námskeiðsins í námssamfélagi og hvernig kennarar vinna með efni námskeiðsins með nemendum. Að lokum verður örstutt kynning á námskeiðinu Stærðfræðinám og upplýsingatækni ætlað stærðfræðileiðtogum í grunnskólum sem Menntafléttan ætlar að bjóða upp á næsta skólaár.