Sigrún DaníelsdóttirEmbætti landlæknis
10. maí
Háaloft
21:40 - 22:40

Geðrækt, forvarnir og stuðningur við börn og ungmenni í skólastarfi

Á vinnusmiðjunni verður fjallað um afraskstur vinnu starfshóps sem settur var á fót haustið 2018 til að gera tillögur um innleiðingu geðræktarstarfs í leik-, grunn- og framhaldsskólum á Íslandi. Vinna hópsins var liður í geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda til ársins 2020 þar sem markmiðið var að efla uppeldisskilyrði barna hér á landi þannig að þau stuðli að vellíðan, góðri geðheilsu og félagsfærni.

 Starfshópurinn lagði fyrir viðamikla könnun í leik-, grunn- og framhaldsskólum um allt land til að fá yfirlit yfir núverandi stöðu geðræktar, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólastarfi hér á landi. Niðurstöður sýndu m.a. að styrkja þarf innviði skólakerfisins til að sinna þessum þætti skólastarfs, bæta þarf starfsaðstæður og vinna markvisst að uppbyggingu þekkingar og færni starfsfólks á öllum skólastigum til að styðja við þroska, líðan, hegðun og samskipti barna og ungmenna. Á öllum skólastigum mætti sömuleiðis efla markvissa kennslu í félags- og tilfinningafærni og gæta þess að nálgun að hegðun barna og ungmenna í skólum sé í samræmi við bestu þekkingu. Þá sýndu niðurstöður að bæta þarf verulega skipulag, utanumhald og framkvæmd á stuðningi við börn og ungmenni í skólastarfi og efla hlutverk skólaþjónustu gagnvart skólum og starfsfólki þeirra. 

Niðurstöður könnunarinnar voru nýttar við mótun tillagna til stjórnvalda um markvissa innleiðingu þrepaskipts stuðningskerfia (e. multi-tiered system of support) og annarra umbóta sem gera skólum kleift að sinna geðrækt, forvörnum og stuðningi með öflugri hætti. Starfshópurinn skilaði tillögum sínum haustið 2019 en þær telja yfir 40 aðgerðir sem ná bæði til skólakerfisins og annarra kerfa sem sinna velferð barna og ungmenna. Þær hafa einnig mikilvæga snertifleti við þá heildarendurskoðun á málefnum barna sem hafin er í samvinnu þvert á ráðuneyti hér á landi. Á vinnustofunni verður greint frá aðgerðum áætlunarinnar og þýðingu þeirra fyrir skólastarf og velferð barna hér á landi.