Foldaskóli
10. maí
Ríma
15:45 - 15:55

Sjálfbærni - náttúra - sköpun (LÁN)

Í janúar 2021 hófst samstarf miðstigs Foldaskóla við LÁN – listrænt ákall til náttúrunnar. Lögð var áhersla á sjálfbærni, náttúru og sköpun í samstarfinu. Foldaskóli er Grænfánaskóli og heilsueflandi skóli og kallaðist verkefnið því vel á við áherslur skólans í umhverfismálum. 

Í 5. bekk völdu nemendur og kennarar að vinna með plast og því var lögð áhersla á fræðslu um plast og skaðleg áhrif þess á náttúruna og sömuleiðis hvernig hægt væri að endurnýta það. Í 6. bekk var lögð áhersla á veður og áhrif loftslagsbreytinga á náttúruna en áhersluatriði 7. bekkjar tengdust lífsferli bómullar með áherslu á að auka skilning nemenda á samhengi neyslu, samfélags og náttúru jarðar. 

Á þemadögum í mars sl. var síðan unnið með viðfangsefnin á þverfaglegan hátt með aðstoð listamanna á vegum LÁN. Aðkoma þeirra byggði á að nemendurnir kynntust málefnum náttúrunnar á listrænan og nýstárlegan hátt. Listamennirnir ásamt kennurum settu upp smiðjur sem gengu út á að krakkarnir gætu sýnt frumkvæði með því að dýpka þekkingu sína á þeim málefnum sem þeir höfðu rannsakað. Lögð var áhersla á að verkefnin væru unnin af nemendum en markmiðið var meðal annars að hvetja börnin til góðra verka í umhverfisvernd og sjálfbærni og að virkja sköpunargleðina.

Fram að þemadögum höfðu kennarar unnið á einn eða annan hátt með nemendum að undirbúningi, meðal annars í náttúrufræði og umhverfismennt. 

Verkefnið var sent í keppnina Varðliðar umhverfisins 2021 og vann til verðlauna þar. Varðliðar umhverfisins er keppni á vegum Umhverfis- og auðlindaráðuneytis, Landverndar og Miðstöðvar útivistar og útináms.

Tengt efni: