Anne BamfordCity of London
10. maí
Silfurberg
10:40 - 11:20

Að raungera drauminn - “Living the Dream”

Prófessor Anne Bamford stýrir deild menntunar og hæfni hjá borgaryfirvöldum í Lundúnum, auk þess sem hún starfar við rannsóknir fyrir UNESCO og fl.. Hún hefur stýrt stefnumótun í menntamálum í Bretlandi og víðar og leitast við að greina þá hæfni sem mikilvægast er að efla í menntakerfinu. Anne hefur hlotið viðurkenningu á alþjóðavettvangi fyrir rannsóknir sínar á gildi sköpunar, símenntunar og tækni í námi og kennslu. Þá hefur hún rannsakað áhrif nýsköpunar, jafnréttis og margbreytileika á menntun. Anne innleiddi hugtakið „fusion skills“ sem þýða mætti sem „samruna hæfniþátta”  og lýsir flóknu samspili fjölbreyttrar hæfni sem mikilvægt er að börn tileinki sér til að ná að blómstra í nútíð og framtíð. 

Í erindi sínu ætlar Anne m.a. að fjalla um hvernig ótti okkar við breytingar og mistök stendur í vegi fyrir því að við breytum út af vananum. Einnig hvernig við getum betur skipulagt skóla- og frístundadaginn og mætt tæknilegum og samfélagslegum áskorunum. Til þess að búa börn undir framtíð í breyttum heimi þurfum við að horfast í augu við það hvaða hæfni er þeim mikilvægust. Tækifærin, en um leið áskoranirnar, liggja m.a. í auknu samstarfi milli formlegrar og óformlegrar menntunar, markvissri starfsþróun og aukinni áherslu á skapandi starf og stafræna tækni í starfi með börnum.  

Í lok erindisins munu þau Fríða Bjarney Jónsdóttir og Ingvi Hrannar Ómarsson spjalla við Anne og taka við spurningum frá áhorfendum í gegnum SLIDO.

Fríða Bjarney, deildarstýra Nýsköpunarmiðju Menntamála, hefur það hlutverk að styðja starfsstaði skóla- og frístundasviðs við innleiðingu menntastefnu Reykjavíkur til 2030.

Ingvi Hrannar er kennsluráðgjafi í upplýsingatækni hjá sveitarfélaginu í Skagafirði og sérfræðingur hjá skólaþróunarteymi mennta- og menningarmálaráðuneytis vegna innleiðingar nýrrar menntastefnu Íslands til 2030.